Frá þungun til barns…

Nú er ég á þeim aldri að flestir sem ég þekki eru á barneignaraldri og er oft leitað til mín með hinar ýmsu spurningar sem tengjast meðgöngu, fæðingu, brjóstagjöf og uppeldi….

Ég er ekki læknir, ljósmóðir, hjúkrunarfræðingur eða fagaðili að nokkru öðru leiti á þessu sviði. Mín reynsla fæst af 6 ára þáttöku í mömmuhópum, 15 ára reynslu af barnapössun og rúmlega 5 ára reynslu af móðurhlutverkinu. Ég er 2ja barna móðir og er rétt rúmlega komið ár síðan ég upplifði sjálf allt það sem kemur að barneignum og vil ég deila því sem ég veit og hef lært áður en það dettur úr mér (það er nefnilega merkilegt hverju maður gleymir)!

Þið sem hafið engan áhuga á þessu málefni getið einfaldlega sleppt því að lesa! MERKILEGT! Ég kem með eitthvað áhugaverðara fyrir ykkur næst =)

Byrjum á getnaði og óléttuprófunum…

Hjá konum með „venjulegan“ tíðarhring þá á getnaður sér stað 2 vikum EFTIR fyrsta dag blæðinga (+/)… Þá á nefnilega egglos sér stað. EN þegar meðgöngulengd er talin í vikum þá er talið frá fyrsta degi síðustu blæðinga. Þetta getur að sjálfsögðu skeikað og maður verið kominn lengra eða styttra.

Þungunarpróf, eru ekki 100% en það er almennt talið að Jákvætt sé jákvætt. En neikvætt getur verið jákvætt. Það er byggt á því að prófið mælir HCG hormónið sem myndast við þungun. Það er algengast að fá jákvætt þegar maður er búinn að missa af blæðingum en sum próf geta numið þungun fyrr. Ég ráðlegg konum persónulega ekki að taka próf fyrren það er búið að missa af blæðingum þar sem að það er alltaf möguleiki á því að frjóvgað egg festist ekki og komi fram sem seinkaðar blæðingar. Það kallast dulinn missir. Flestar konur taka ekki einusinni eftir því. Það er líka mikilvægt að fylgja þeim leiðbeiningum sem fylgja hverju þungunarprófi.

Einkenni þungunar geta líka verið mjög misjöfn og finna sumar konur fyrir miklum einkennum fljótt á meðan aðrar finna ekkert. Helstu einkennin sem ég veit af eru:

Tíðari þvaglát,
Stækkuð / aum brjóst
Mikil Þreyta
Ógleði / Uppköst
Svimi
Bjúgur
Sísvengd
Breyting á bragðskyni og lyktarskyni
ofl.

Þegar þungunarprófið er jákvætt er gott að vita hvenær síðustu blæðingar áttu sér stað, en ef það leikur efi á því þá er alltaf í boði að leita til kvensjúkdómalæknis og fara í svokallaðan snemmsónar. Þar má sjá meðgöngulengd og það er mælt með því að bókaður sé fyrsti tími hjá ljósmóður um 10 vikurnar (8 vikum frá getnaði).

 • Ef meðgangan er hinsvegar óvelkomin er fóstureyðing valkostur sem vert er að skoða. Ég hef enga persónulega reynslu af fóstureyðingu og því get ég ekki ráðlagt um það. Ég veit þó að fyrsta skrefið er alltaf að fá tíma hjá félasgráðgjafa uppi á spítala og mæli ég hiklaust með því að nýta sér það þó að fóstureyðing er ekki ákveðin! Það má fara oft til félagsráðgjafans og það þarf ekki að fara í fóstureyðingu þó að maður fari í viðtal!

Hér má lesa um mæðraverndina! 

Hér má lesa um mömmu hópa!

Það eru fleiri skoðanir í mæðraverndinni fyrir þær sem hafa ekki átt barn áður.

Mín ráð varðandi mæðraverndina eru eftirfarandi (og byggð á eigin reynslu)

 • Þú mátt ALLTAF skipta um ljósmóður ef þér líkar ekki við þína! Það er ekki dónalegt, þetta er þín meðganga, þú átt að njóta hennar og finna öryggi hjá ljósmóður þinni!
 • Ef þú ert óviss, spurðu! Ef þú vilt láta athuga með eitthvað, heimtaður það!
 • Þú mátt alveg treysta ljósmóðurinni og læknum, enda eru þau fagfólk, en treystu líka innsæinu. Ef þú heldur að eitthvað sé að, stattu þá hörð á þínu!
 • Læknar og ljósmæður eru misjöfn eins og þau eru mörg og alveg eins og í öðrum stéttum þá eru alltaf einhver skemmd epli, einhverjir sem eru ekki starfi sínu vaxnir. Þú mátt krefjast topp þjónustu!
 • Lestu þér til um alla valmöguleika, allt sem er í boði.
 • Svo eru til Doulur, sem eru frábærar og veita persónulegri þjónustu en ljósmæður.

Á meðgöngu geta líka komið upp ýmsir kvillar sem eru misalvarlegir. Ég ætla ekki að tala um neinn þeirra fyrir utan grindarlos, því það er eina sem ég hef reynslu af.

Við grindargliðnun mæli ég með eftirfarandi ráðum:

 • Hitakodda
 • Að sofa með stóran púða á milli lappanna
 • Snúningslaki
 • Sjúkraþjálfun
 • Nálastungum (hjá ljósmóður, sjúkraþjálfa eða 9 mánuðum)
 • Meðgöngusundi
 • Meðgöngunuddi
 • Meðgöngujóga
 • Baðferðum eða heitapottum (ekki of heitum samt)
 • Að læra rétta líkamsbeitningu (t.d. að stíga jafnfætis í og úr bíl og framúr rúminu).
 • Cranio (höfuðbeina og spjaldhryggsjöfnun)
 • Rebozo
 • Kírópraktor (ef þú ert vön)
 • Grindarbotnsæfingar
 • Stuðningsbelti
 • og fleira sem ég man ekki akkúrat núna!

 

Á meðgöngu eru þó yndislegar stundir sem maður upplifir, það eru sónarskoðanirnar þar sem maður fær að kíkja í pakkann, fyrst í snemmsónar (ef maður kýs), svo í 12 vikna sónar, svo í 20 vikna sónar (þar sem maður getur fengið að vita kynið) og svo er líka í boði að fara í 3D þrívíddarsónar, sem sumar gera til að staðfesta kynið og flestir gera til að sjá hvernig barnið lítur út. (Mín börn voru alveg eins og í sónarnum)

Þessar skoðanir eru ekki bara framkvæmdar foreldrum til yndisauka, heldur þjóna þær læknisfræðilegum tilgangi. Þið getið lesið ykkur til um það í hlekkjunum sem ég festi við textann hér að ofan.

Þegar líður á meðgönguna fer hreiðurgerðin að taka völd hjá flestum verðandi mæðrum og fyllist kona þá magnaðari þörf fyrir að hafa allt tilbúið og fullkomið þegar unginn mætir. Þá langar hana til þess að eiga allt og kaupa allt. Ég mæli með því að reyna að fá sem flest notað þar sem að það er oftast mjög vel með farið, allavega allt sem notað er fyrsta árið. Þá eru til aragrúi af sölusíðum á facebook og óendanlegt framboð á bland.is. Þá er líka flókið að vita hvað maður þarf og þarf ekki, sumt eru nauðsynjar, annað notað eftir þörfum og sumt bara lúxusvörur.

Hér er listi sem ég tók saman úr ýmsum áttum þegar ég átti von á mínu öðru barni yfir það sem MÉR fannst gott að eiga fyrir fæðingu og fyrstu vikurnar eftir fæðingu:

Föt (flest börn sem ég þekki staldra stutt við í 56 og fara fljótt í 62):

15-17 Samfellur (5-7 stutterma og 10 langerma)
6-8 stk bómullargallar
7-10 Sokkabuxur/mjúkar buxur
Útigalla og húfu.
Svo er hefð fyrir sérstökum heimferðargalla.

Annað sem ég tel nauðsynjavörur:

Ungbarnableyjur (flest byrja í stærð 2)
Rassasvampa, blautþurrkur eða grysjur
Eyrjapinna
Bossakrem (Ég mæli með Deflamol og AD Kremi)
Barnarúm /Vagga
Ungbarnasæng og koddi (koddi notast ekki strax)
Sængurver og koddaver
PISSULÖK – Á dýnuna hjá ykkur(ef vatnið fer í svefni og til að skemma ekki dýnuna með úthreinsun, lekandi brjóstum og slíku og hjá barninu! (Rúmfó)
Brjóstainnlegg (einsog dömubindi fyrir brjóstin)
Brjóstaskálar (mér fannst það must have, enda lausmjólka)
Skiptitaska (eða eitthvað sem má nota undir allt sem fylgir barninu)
Hitamælir (Rassamælir er nákvæmastur)
Bílstóll
Gott og hlýtt teppi, helst mjúkt ( gott að eiga 2-3)
Taubleyjur ( æluklútar) – Fínar í rúmfó!

Annað sem er gott að eiga eftir þörf og efnum!

Skiptiborð + Dýna á skiptiborð
Bleyjuruslatunna
Pokar með lykt (fást í bónus)
Baðbali
Baðhitamælir
Sér barnahandklæði
Vagga
Stuðkantur
Órói
Ungbarnasvefnpoki/vefjusjal
Barnapíutæki (t.d. AngelCare)
Vagn
Kerrupoki
Bílstólapoki
Brjóstapumpa
Brjóstakrem
Brjóstaskálar
Gjafabrjóstahaldari
Gjafabolir
Leikteppi
Ömmustóll
Slefsmekkir
Dót á bílstól
Snuð og pelar (ekki öll börn taka snuð og pela)
Bómolía (ef barnið fær skán)+ Lúsakambur
Kommóða fyrir föt (skiptikommóða)
Matarstóll
Himnasæng
Ungbarnaróla

Þessi listi er alls ekki tæmandi og má líklega endalaust bæta við hann (endilega bendið mér á í kommentum ef ég gleymi einhverju), en þetta var minn listi sem ólétta ég tók saman úr ýmsum áttum.

Þá kemur stundin sem hver ófrísk kona bíður eftir. Fæðingin. Flestar óléttar konur gera sér miklar væntingar til þess hvernig fæðingin á að fara og því miður standast þær væntingar sjaldnast. Ég mæli með því við verðandi mæður að lesa sér til um allt sem stendur til boða og skrifa niður hvað þær eru til í að prófa og hvar þeirra mörk liggja en ekki búast við neinu af fæðingunni. Leyfa henni bara að gerast með opnum hug.

Það eru margir valkostir í boði sem vert er að skoða en þá verð ég að taka fram að í sumum tilvikum má fæðing ekki fara fram annarsstaðar en á fæðingargangi landsspítalans vegna heilsu móður og barns, það er þó sem betur fer sjaldgæft. Ég þekki þó aðeins þau úrræði sem eru í boði á höfuðborgarsvæðinu.

Nú minntist ég áðan á Doulur, sem eru frábærar stuðningskonur við verðandi mæður og maka þeirra. Einnig má sækja ýmis námsskeið:

Praktískt paranámsskeið (Hönd í hönd)
Hypno-Birthing (Hönd í hönd)
Hypno-Birthing (9 mánuðir)
Fæðingarfræðsla (9 mánuðir)
Fæðingarfræðsla (Björkin)

Lygna.is er frábær síða sem er vettvangur fyrir allt sem viðkemur fæðingum og fæðingarundirbúning. Ásamt því að tengjast líka tímabilinu eftir fæðingu, brjóstagjöf og slíku.

Margar konur verða ansi óþreyjufullar á síðustu vikum meðgöngunnar og sérstaklega ef þær eru komnar á eða framyfir settan dag og ekkert gerist. Þá reyna margar að leita lausna með ýmsum aðferðum til að setja sig af stað. Nú veit ég að ekkert af þessu virkar ef konan er ekki hagstæð (leghálsinn enn lokaður og ekkert að gerast). En sumar segja að þær hafi náð að koma sér af stað. Sumt af því sem ég hef heyrt (en mæli ekki með neinu nema í samráði við lækni/ljósmóður):

Laxerolía
Lavender bað
Kynlíf (sæði)
Ananas(með miðjunni), Mangó, Kíví
Að láta hreyfa við belgnum,
Nálastungur
Svæðanudd
Geirvörtunudd
Sterkur matur
Hindberja Te
Göngutúrar
Ofl.

En allra besta ráðið að mínu mati er SLÖKUN! Ég hef heyrt lang flestu sögurnar af því að loksins þegar konurnar gáfust upp á því að reyna öll þessi ráð og fóru loksins að slaka að þá kom þetta! Ég reyndi flest þessarra ráða en eina sem ég uppskar var hellaður niðurgangur og mikil þreyta. Það eru ýmsir valkostir í boði þegar kemur að fæðingastöðum. Sumar kjósa að fæða heima, aðrar vilja fæða á akranesi eða annarsstaðar utan höfuðborgarsvæðisins en aðalmiðstöð fæðinga á íslandi er á fæðingagangi landsspítalans. Það fer eftir því hvað hver og ein vill og eftir heilbrigði meðgöngunnar hvað er í boði að hverju sinni.
Þegar fæðing fer af stað er gott að hafa undirbúið sig vel og flestar konur hafa pakkað í tösku á vikunum fyrir áætlaðan fæðingardag og hafa undirbúið lista yfir það sem þær telja gott að hafa með sér. Hér er minn listi :
Stór Dömubindi – Það eru samt til á spítalanum
Nesti – Svalafernur, powerade, samlokur,
Fartölvu og áhorfsefni
Annað afþreyingarefni (bækur, krossgátur ofl)
Nuddolíu
Tannbursti + Tannkrem
Góða og þægilega tónlist
Svitalyktareyði
Shampoo+næringu
Snyrtivörur (Andlitshreinsi, krem og slíkt)
Teygjur!
Varasalva! (brjóstakrem virkar líka)
Gjafahaldara
Brjóstainnlegg
Brjóstakrem
Síma og Hleðslutæki
Þægileg föt (Náttbuxur og góða víða boli) Líka fyrir maka – makar verða að vera í náttfötum líka.
Náttslopp fyrir ykkur bæði
Sokka og nærbuxur (stórar nærbuxur sem bindin passa á)
Myndavél og hleðslutæki/batterí
Videocameru og hleðslutæki (ef þess er óskað)
Heimferðaföt fyrir þig (ekkert með of þröngum streng)
Heimferðaföt fyrir barnið
Gott teppi fyrir barnið
Bílstóll (má hafa útí bíl eða sækja seinna)
Bleyjur og þurrkur (færð það ekki uppi á spítala)
Fæðingaráætlun
Símaskrá: Lista með helstu númerum (maka, lækni, sjúkrahús, ljósa, doula, foreldrar, tengdó, ofl)
KLINK í sjálfsalana!

Ég vil líka hvetja allar konur til að kynna sér fæðingastellingar. Þessi týpíska „liggja á bakinu“ stelling er nefnilega með þeim verstu sem hægt er að vera í upp á að fæða barn! (ég átti samt mín bæði þannig)

Svo þarf líka að íhuga úrval verkjastillinga sem eru í boði. Það er misjafnt álit fólks á verkjastillingu í fæðingu og ætla ég ekki út í þá sálma hér. Mitt álit er að það er gott og blessað að prófa náttúrulegar leiðir til verkjastillingar í fæðingu, EN að stundum eru verkjastillingar á við mænudeyfingu nauðsyn og var það mín upplifun af báðum mínum fæðingum sem ég tala kansi um seinna. Mikilvægt er þó að muna að val hverrar konu er hennar og bera verður virðingu fyrir því, enda er fæðing barns falleg, sama hvernig hún fer fram!

Þá eru keisaraskurðir alveg jafn mikið fæðingar og aðrar. Sama hver ástæðan fyrir þeim eru. Ég þekki þá samt ekki nóg til að tala um þá en það er hlekkur hér á undan 🙂

Mér finnst mikilvægt að tala um STIG FÆÐINGAR, sérstaklega í ljósi þess að ég hafði ekki hugmynd um fyrirbærið og þegar að mitt fyrsta barn var fætt þá hafði enginn varað mig við því að fylgjan þyrfti líka að fæðast á eftir! Eða kanski er nóg að minnast bara á það og þær sem vilja geta fylgt hlekknum:)

Annað sem ég hvet allar konur til að kynna sér eru þau inngrip sem gæti þurft að grípa til í fæðingu, notkun sogklukkna, tanga, spangarklippingar ofl. Þá geta þær sett í fæðingaráætlunina hvar þeirra mörk liggja og hversu lengi þær vilja t.d.rembast áður en gripið er inn í.

Eftir að barnið kemur út þarf það stundum smá aðstoð, smá súrefni eða hlýju. Þetta gerðist með bæði börnin mín í fyrstu fæðingunni varð ég mjög hrædd því enginn hafði varað mig við þessu. Þessvegna tel ég mig verða að nefna þetta! Ég persónulega hélt að barnið mitt væri bara að deyja, en þá var engin hætta á ferð.

Með brjóstagjöf þá hvet ég allar mæður til þess að láta kenna sér þangað til að þetta næst! Með fyrsta barn var mér rétt sýnt hvað ætti að gera og var svo send snemma heim, það gekk alltaf illa og var ég fljót að gefast upp á brjóstagjöfinni. Með annað barnið þá vorum við svo „heppin“ að vera lengur á spítalanum en venjulegt mætti teljast og þá fékk ég góða aðstoð og kennslu. Hjá sumum er brjóstagjöf ekkert mál, en mér fannst þetta vera stanslaus vinna og var ég komin með nóg þegar hann var 4 mánaða, enda var hann að fá tennur! Ég þorði ekki í það.
Margar konur finna fyrir miklum þrýsting að hafa barn á brjósti, en mér finnst að hver ætti að gera það sem þeim hentar. Ég mæli með því að prófa og reyna, en ef það gengur ekki þá bara gengur það ekki.

Eftirfarandi hlekkir geta komið að gagni:

Stuðningskonur við brjóstagjöf á facebook
Brjóstagjafaráðgjafar
IBCLC Brjóstagjafaráðgjöf
Brjóstagjöf.is

Hjá móðurást má leigja mjaltavélar og versla aðrar vörur sem koma barninu við.

Hér má lesa um geymsluþol brjóstamjólkur.

Nú held ég að það sé allt komið sem ég þekki í tengslum við þetta málefni! Ef þið hafði einhverju að bæta getið þið sent mér skilaboð á alexank_90@hotmail.com eða commentað hér fyrir neðan 🙂 Það er svo endalaust til af upplýsingum í þessum málaflokki! Vonandi kom þetta einhverjum að gagni!

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s